SriChinmoy.org
is More about Sri Chinmoy
x

Ísland trúir á frið, Ísland iðkar frið

Ræða Sri Chinmoys í Höfða 30. október 2000

Video

Ég hneigi mig í lotningu fyrir sál Íslands. Ég hneigi mig innilega fyrir hjarta Íslands.

Ísland trúir á frið, Ísland iðkar frið. Þetta er nokkuð sem er afskaplega sjaldgæft. Við tölum um frið, en við viljum að þessi friður okkar sé með sérstökum hætti; það er að segja: ég þarf að vera þér fremri, þú þarft að vera aftar mér. Þá köllum við það frið. En raunverulegur friður er að opna hjartað. Að ganga saman, að fylkja liði saman, að hefja okkur til flugs saman. Þess vegna hefur Ísland sannað fyrir öllum heiminum að það trúir á frið.

Ísland býr yfir fegurð náttúrunnar og kærleika og ástríki náttúrunnar gagnvart Guði sköpunarinnar í óendanlegum mæli.

Það fyrirfinnst ekki eitt einasta land í heiminum sem ekki talar um frið, en þegar koma á þeim orðum í verk verður fátt um efndir. Í ykkar tilfelli hafið þið sannað að þið meinið það sem þið segið. Þið eruð ekki með her. Er þetta ekki mikilvægasta leiðin til að sýna heiminum að við setjum ekki traust okkar á vopn, við setjum traust okkar á mátt hjartans, og þessi máttur hjartans er heimur einingar.

Þið hafið afskaplega dýrmætan boðskap að færa heiminum og þann boðskap hafið þið verið að flytja í afskaplega mörg ár: við þurfum ávallt að vera í hjartanu. Ef við lifum í hjartanu höfum við enga þörf fyrir vopn, því hjartað er víðátta, hjartað er eining. Ef við getum komið á einingu í samfélagi þjóðanna, munum við enga þörf hafa fyrir vopn eða hergögn, né nokkuð sem aðskilur þjóðirnar.

Þess vegna vil ég meina að þið séuð frumkvöðlar og brautryðjendur að nýjum heimi. Við getum lifað í friði, einingu, sátt og samlyndi. Eining er uppfylling. Og þegar ég kem hingað, líður mér eins og heima hjá mér, einmitt vegna þess að friðurinn ríkir óumdeildur í hjörtum Íslendinga og vegna þess að hér hefur draumurinn orðið að veruleika. Víðsvegar um heim dreymir fólk um frið og sums staðar hugsar fólk ekki einu sinni um hann, en hér í þessu landi hafið þið gert drauminn að veruleika. Ísland, þú ert friður hið innra, þú ert friður hið ytra.

Mig langar til að deila með ykkur einu afskaplega merkilegu atviki. Hér er hinn mikils metni forsætisráðherra okkar*. Ég hef lyft tvö þúsund manns - þetta er verkefni fyrir einingu heimsins - og hann var sá eini sem var nógu hugrakkur til að halda á logandi friðarkyndlinum. Kyndillinn logaði og hann hélt á honum. Ég fann fyrir hinni háleitustu innri þrá landsins ykkar í forsætisráðherranum.

Ég tileinka mér frið og hvar sem ég sé frið, hvar sem ég finn frið, þar líður mér eins og ég eigi heima. Þannig að heimili hjarta míns er á Íslandi og þess vegna er ég hér með ykkur.

Við erum öll fuglar, við fljúgum á himni friðar og að sama skapi eigum við hreiður, hreiður hjartans, og þetta hjarta-hreiður er mitt kæra Ísland.

* Sri Chinmoy vísar hér til Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem var viðstaddur.